fbpx

Dedd með Júlían

Sunnudaginn 21. janúar býður Afrek upp á vinnustofu í réttstöðulyftu með engum öðrum en Júlían J. K. Jóhannssyni. Júlían hefur stundað kraftlyftingar í 16 ár með mögnuðum árangri; varð Evrópu- og heimsmeistari unglinga, heimsmethafi í réttstöðulyftu og var valinn íþróttamaður ársins 2019.

Vinnustofan fer fram milli klukkan 14 og 15.30 og Júlían hyggst leggja áherslu á að hámarka árangur og lágmarka líkur á meiðslum. Hann fer meðal annars yfir hversu oft er ráðlagt að dedda ásamt stíl og líkamsbeitingu miðað við vöxt og styrkleika.

Júlían segir að einn af helstu kostum réttstöðulyftunnar sé að æfingin taki á öllum líkamanum, frá toppi til táar. „Hún er gríðarlega góð leið til að styrkjast, bæta líkamsstöðu og færni í lífinu en fyrst og fremst er þetta skemmtileg lyfta sem er goðsagnakennd í íslenskum kraftaíþróttum, segir hann.

En er alltaf hægt að bæta sig í deddi?

„Já klárlega. Flestir eru ragir við að fara þungt og eru hræddir um að meiða sig. Auðvitað er tækni og að forðast meiðsli númer eitt þegar það kemur að bætingum til lengri tíma en stundum þarf maður smá hvatningu og rétt andrúmsloft til að bæta sig.“

Júlían var 16 ára þegar hann tók 270 kíló í réttstöðulyftu og á mest 409 kíló. Spurður hvað hann fái út úr góðri lyftu segir hann að það sé fyrst og fremst skemmtun.

„Það er bara fáranlega gaman að taka vel á því í réttstöðulyftu, finna sig styrkjast og bæta sig. Það er mjög gefandi að bæta sig og verða sterkari.“

Vinnustofan fer fram sunnudaginn 21. janúar frá klukkan 14 til 15.30.

Verð: 5.000 kr.