fbpx

Afreksskólinn útskýrir fimm óskiljanleg hugtök

Að mæta á æfingu getur verið meiri hugarleikfimi en raunveruleg leikfimi. Þjálfarinn er yfirleitt búinn að skrifa nokkur óskiljanleg hugtök upp á töflu en ekki örvænta: Afreksskólinn kemur okkur til bjargar og skólastjórinn sjálfur, Ólafur Viggósson er til þjónustu reiðubúinn!

AMRAP

Stendur fyrir „as many rounds/reps as possible“. Við notum ensku skammstöfunina enda yrði talsvert meira krefjandi að sjá EMUOME á töflunni („eins margar umferðir og mögulegt er“). Ef æfingin er til dæmis tíu mínútna AMRAP með fimm upphífingum, tíu armbeygjum og 15 hnébeygjum, þá þarf maður að endurtaka þessa röð æfinga eins oft og maður getur í tíu mínútur.

Gott ráð 💡 Ekki byrja of hratt. Reyndu að halda sama hraða í gegnum æfinguna og gefa frekar í undir lokin ef þú átt inni fyrir því.

EMOM

Stendur fyrir „every minute on the minute“ og þýðir að á mínútunni sem æfingin hefst þá þarf maður að klára ákveðinn fjölda endurtekninga og hvíla svo út mínútuna. Dæmi: Ef æfingin er fimm mínútna EMOM með þremur réttstöðulyftum og fimm kassahoppum, þá klárar maður báðar æfingarnar, hvílir út mínútuna og endurtekur svo leikinn þangað til mínúturnar fimm klárast.

Gott ráð 💡 Stilltu æfingunni upp þannig að þú náir að hvíla í sirka 20 sekúndur í hverri umferð.

Metcon

Stytting á „metabolic conditioning“ sem hljómar eins og byltingarkennd tegund af hárnæringu en lýsir æfingu sem blandar saman styrktar- og úthaldsþjálfun. Á metcon-æfingu reynir maður hæfilega mikið á sig í nokkuð langan tíma, til dæmis 20-40 mínútur.

Gott ráð 💡 Ekki of krefjandi þyngdir. Treystu mér.

Chipper

Fjöldi endurtekninga af ákveðnum fjölda æfinga er unninn og yfirleitt þarf maður að klára listann á fyrirfram tilgreindum tíma. Ef maður klárar æfingarnar áður en tíminn er liðinn fær maður að hvíla á meðan hin klára — ef ekki þá vinnur maður í listanum þangað til tíminn klárast. Chipper í þessu samhengi stendur fyrir að „chippa“ eða flísa í burtu endurtekningar, sem eru yfirleitt mjög margar.

Gott ráð 💡 Teldu fáar æfingar í einu svo verkefnið verði ekki yfirþyrmandi. Ef þú þarft að taka 15 wall balls, teldu fimm í einu — maður nær (næstum því) alltaf fimm í viðbót.

Tabata

Unnið er í 20 sekúndur og hvílt í tíu. Þetta er gert átta sinnum og svo hvílt í eina mínútu. Hver lota er því fimm mínútur í heildina og unnið er af mikilli ákefð. Það er til dæmis hægt að stilla upp átta æfingum þar sem fyrsta æfingin er hnébeygjur. Þá gerir maður hnébeygjur í 20 sekúndur og hvílir tíu samtals átta sinnum. Svo er hvílt í eina mínútu og skipt yfir í næstu æfingu sem er framkvæmd eins.

Gott ráð 💡 Vinna í allar 20 sekúndurnar. Ekki hætta þegar þrjár sekúndur eru eftir. Frábær þjálfun fyrir hugann.